1. grein - Bandalag íslenskra skáta

Landssamtök skáta á Íslandi heita Bandalag íslenskra skáta, skammstafað BÍS. Aðsetur þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein - Félagsaðild að BÍS

Hver sem gerist skáti skal vinna skátaheitið, skilja skátalögin og starfa samkvæmt Grunngildum BÍS.

Aðild að Bandalagi íslenskra skáta getur verið með eftirfarandi hætti:

Aðild A Skátafélög með starf fyrir – og félaga á aldrinum 7 – 25 ára
Aðild B Skátafélög sem stunda skátastarf og stuðla að því, með félaga sem flestir eru eldri en 26 ára
Aðild C Hópar skáta sem vilja halda tengslum við BÍS
Aðild D Skátar með beina aðild að BÍS

Eftirtalin réttindi og skyldur fylgja ólíkri aðild að BÍS:

Félagsaðild A B C D
Þjónusta BÍS forgangur ef unnt er ef unnt er
Þátttökuréttur í viðburðum forgangur ef unnt er ef unnt er
Atkvæði á Skátaþingi 4 1 0 0
Félagsgjald til BÍS nei

BÍS starfar í tengslum við félög og stofnanir sem starfa að málefnum er lúta að velferð barna og ungmenna og öðrum þeim málum sem samræmast Grunngildum BÍS og markmiðum skátahreyfingarinnar.

BÍS er aðili að Æskulýðsvettvanginum og starfar eftir þeim reglum, stefnum og viðbragðsferlum sem Æskulýðsvettvangurinn setur sér að fylgja hverju sinni.

3. grein - Einkenni BÍS

Merki BÍS er skátaliljan og smárinn tengd saman með hnúti úr íslenskum vefnaði. Stjórn BÍS setur reglugerð um nánari útfærslu og notkun á merki BÍS og öðrum einkennum skáta.

Orðið og orðmyndin skáti er skráð vörumerki skátahreyfingarinnar á Íslandi. Eingöngu viðurkenndir aðilar af hálfu BÍS, að viðlagðri ábyrgð, hafa heimild til að nota orðmerkið „SKÁTI” og/eða orðmyndanir dregnar af orðmerkinu. Það sama á við um við- og/eða forskeyti á hverju sem er, s.s. í nafni á félagi eða samtökum, á vörum, á fatnaði og í auglýsingum. Það sama gildir um öll önnur einkenni skáta.

4. grein - Grunngildi BÍS

Grunngildi Bandalags íslenskra skáta mynda sameiginlega grundvöll skátastarfs á Íslandi og skilgreina þannig sérstöðu þess. Þau eru sá grunnur sem Bandalag íslenskra skáta og öll skátafélög á Íslandi starfa eftir. Grunngildi BÍS eru samþykkt af Skátaþingi.

5. grein - Hlutverk BÍS

Hlutverk Bandalags íslenskra skáta er að vinna að eflingu skátastarfs á Íslandi. Hlutverk sitt rækir BÍS m.a. með því að:

  • Standa vörð um sjálfstæði BÍS sem frjálsra og óháðra félagasamtaka.
  • Stuðla að ungmennalýðræði.
  • Styðja við og efla starf skátafélaganna í landinu.
  • Stuðla að gerð dagskrárefnis til notkunar í skátastarfi, er taki mið af Grunngildum Bandalags íslenskra skáta.
  • Stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af Grunngildum Bandalags íslenskra skáta.
  • Standa fyrir dagskrárviðburðum fyrir skáta.
  • Annast samstarf um málefni skáta við ríkisvaldið og önnur félagasamtök.
  • Vera fulltrúi íslenskra skáta á alþjóðavettvangi skáta.
  • Kynna skátastarf og Grunngildi Bandalags íslenskra skáta fyrir almenningi.
  • Bera ábyrgð á að BÍS fylgi stefnum alþjóðasamtaka skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt samskiptum við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
  • Bera ábyrgð á fjármálum BÍS og afla tekna er gera BÍS kleift að halda fullu fjárhagslegu sjálfstæði.
  • Auka stuðning fullorðinna einstaklinga við skátastarf.
  • Gera sem flestum börnum og ungmennum kleift að stunda skátastarf.

6. grein - Alþjóðabandalögin

BÍS kemur fram fyrir hönd íslenskra skáta gagnvart alþjóðabandalagi skáta, WOSM, og alþjóðabandalagi kvenskáta, WAGGGS, sem og erlendum skátabandalögum.

7. grein - Skátafélög

Stjórn BÍS skal aðstoða og leiðbeina þeim sem stofna vilja nýtt skátafélag, eða endurvekja gamalt, svo sem kostur er.

Stofnun skátafélags, nafn þess, lög og merki, er háð samþykki stjórnar BÍS, enda séu lög hins nýja félags í samræmi við Grunngildi, lög og reglugerðir BÍS og landslög.

Innganga skátafélags í BÍS skal formlega staðfest á Skátaþingi og öðlast hún gildi í lok þess þings.

Hvert skátafélag er sjálfstæður lögaðili. Skátafélög starfa eftir Grunngildum BÍS og þeim meginreglum sem stofnandi skátahreyfingarinnar, Baden-Powell, setti skátastarfi og alþjóðasamtök skáta hafa staðfest. Einnig starfa þau eftir lögum og reglugerðum BÍS, æskulýðslögum og öðrum landslögum sem snerta starfsemi þeirra.

Meginhlutverk skátafélaga er að standa fyrir og/eða styðja við reglubundið skátastarf fyrir börn og ungmenni á aldrinum 7-25 ára, sem starfa að jafnaði í aldursskiptum skátasveitum sem skipað er í flokka, auk skátaforingja og annarra fullorðinna.

8. grein - Skátasambönd

Skátafélögum er heimilt að mynda með sér skátasambönd. Þau eru samstarfsvettvangur og málsvari skátafélaga í sameiginlegum málum. Skátasambönd setja sér starfsreglur í samræmi við lög BÍS.

9. grein - Lög skátafélaga

Skátafélögum innan BÍS er skylt að setja sér lög. Í vörslu BÍS skal jafnan vera eintak af gildandi félagslögum viðkomandi skátafélags. Í lögum hvers skátafélags skulu a.m.k. vera ákvæði um eftirfarandi:

  • Aðalfundur félagsins skal haldinn árlega. Stjórn BÍS er heimilt að senda áheyrnarfulltrúa á fundinn. Fundarboð skal sent skrifstofu BÍS.
  • Í félaginu skal starfa minnst 3ja manna stjórn sem funda skal að jafnaði mánaðarlega. Þar á meðal skulu vera félagsforingi og gjaldkeri en sami aðili má ekki gegna báðum embættum.
  • Í félaginu skal starfa teymi félagaþrennunar, félagsforingi auk dagskrár- og sjálfboðaliðaforingja sem ýmist geta verið embætti innan eða utan stjórnar.
  • Æskilegt er að minnst einn stjórnarmanna skátafélags með aðild A sé á aldrinum 18-25 ára.
  • Í félaginu skal starfa foringjaráð og/eða félagsráð þar sem skátaforingjar og stjórn félagsins eiga sæti. Foringjaráð og/eða félagsráð skal funda eigi sjaldnar en þrisvar á ári.
  • Stjórn og foringjaráð skulu skipuð fólki af fleira en einu kyni og kynjahlutföll vera sem jöfnust sé því við komið.
  • Hvernig staðið skuli að úrsögn félagsins úr BÍS.
  • Hvernig staðið skuli að því að leggja starfsemi félagsins niður.
  • Hverjir skulu fara með eignir félagsins hætti það störfum. Þessir aðilar eru skyldugir til þess að ráðstafa eignunum í samráði við stjórn BÍS.

10. grein - Gagnaskil skátafélaga

Á árlegum aðalfundi skátafélaga skulu stjórnir þeirra leggja fram skýrslu um störf liðins árs og ársreikninga áritaða af félagskjörnum skoðunarmönnum.

Aðilar að BÍS skulu fyrir Skátaþing árlega hafa greitt félagsgjald fyrra starfsárs til BÍS og standa skil á gögnum til skrifstofu BÍS:

Félagsaðild A B C D
Félagatal
Ársskýrsla síðasta starfsárs nei nei
Gildandi lög nei nei
Starfsáætlun næsta starfsárs nei nei
Ársreikningur síðasta starfsárs nei nei
Undirritaðri heimild til BÍS til að kanna sakaskrá allra félaga 18 ára og eldri nei nei
Nöfn, hlutverk og tengiliðaupplýsingar allra stjórnarmeðlima félagsins

Auk þess skulu aðilar með aðild A, B, C og D starfa í anda Grunngilda BÍS. Þá skulu skátafélög með aðild A og B vera skráð frjáls félagasamtök með kennitölu.

11. grein - Óvirk skátafélög

Í eftirfarandi tilvikum getur stjórn BÍS boðað til aðalfundar skátafélags samkvæmt lögum þess og/eða vikið félagsstjórn þess frá störfum og skipað félaginu umsjónaraðila þar til kosin hefur verið ný stjórn og valinn nýr félagsforingi:

  • Aðalfundur, löglegur og skráður samkvæmt lögum félagsins, hefur ekki verið haldinn í 18 mánuði.
  • Ársreikningar félagsins, endurskoðaðir og áritaðir af tilskildum aðilum, hafa ekki verið lagðir fram og samþykktir í 18 mánuði.
  • Lágmarksstjórn félagsins, löglega kjörin samkvæmt lögum félagsins, hefur ekki haldið skráðan stjórnarfund í að minnsta kosti 6 mánuði.
  • Félagsstjórn fer ekki eftir ákvæðum 10. greinar laga BÍS, eða að starfsemi félagsins samrýmist ekki Grunngildum BÍS, lögum BÍS og/eða landslögum.

Sé skátafélag óvirkt um lengri eða skemmri tíma, þrátt fyrir tilraunir stjórnar BÍS til að efla starf þess, skal stjórn BÍS ráðstafa eigum félagsins samkvæmt lögum þess og í samráði við heimamenn.

12. grein - Brottvísun og úrsögn skátafélaga

Gerist skátafélag eða stjórn þess sek um brot á lögum þessum er Skátaþingi heimilt að víkja félaginu úr Bandalagi íslenskra skáta, að því tilskyldu að 2/3 hlutar þingfulltrúa greiði því atkvæði.

Úrsögn skátafélags úr BÍS er því aðeins gild hafi hún verið samþykkt á lögmætum aðalfundi þess og stjórn BÍS og stjórn viðkomandi skátafélags hafi verið tilkynnt með minnst tveggja mánaða fyrirvara að tillaga um úrsögn komi til afgreiðslu á fundinum. Úrsögnin öðlast þegar gildi.

Skátafélag, sem vikið hefur verið úr BÍS, eða hefur sagt sig úr því, á ekki tilkall til sjóða BÍS eða annarra eigna. Heimilt er að veita því aðild að nýju.

13. grein - Ábyrgðaraðilar í skátasatarfi

Skátaforingi er lögráða einstaklingur sem hefur verið skipaður til ábyrgðastarfa af hálfu félagsforingja eða skátahöfðingja, samanber reglugerð um hæfi skátaforingja. Hver skátaforingi ber ábyrgð gagnvart foringja sínum á því að skátastarf á hans vegum sé virkt og í samræmi við landslög, Grunngildi BÍS og lög BÍS.

Félagsforingi ber ábyrgð á öllu starfi skátafélags gagnvart stjórn BÍS.

Störf sjálfboðaliða í skátastarfi skulu skilgreind formlega og til ákveðins tíma.

14. grein - Aðkoma fullorðinna að skátastarfi

Einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri geta haft aðkomu að skátastarfi sem skátar með félagsaðild að BÍS, samkvæmt A), B) og C) lið þessarar greinar, eða sem styrktarfélagar samkvæmt D) og E) lið.

A) Sem meðlimur í skátafélagi með A- eða B – aðild. Viðkomandi skáti borgar þá félagsgjöld til skátafélagsins sem aftur borgar þátttökugjald til BÍS sem og er ábyrgt fyrir skilum á sakaskrárheimild viðkomandi.

B) Sem meðlimur í hópi skáta sem halda tengslum við BÍS.

    1. Viðkomandi borgar ekki félagsgjald til BÍS.
    2. Viðkomandi skilar sakarskrárheimild.

C) Sem beinn aðili að BÍS með D aðild.

      1. Viðkomandi skráir sig beint í gegnum félagatal BÍS í „Eitt sinn skáti“ félag BÍS og borgar félagsgjald sem á hverjum tíma er jafnt því gjaldi er styrktarfélagar greiða fyrir styrktarpinna BÍS.
      2. Viðkomandi skilar sakarskrárheimild.

D) Styrktarfélagar BÍS: Aðilar sem greiða styrktarpinna eða styrkja BÍS fjárhagslega með öðrum leiðum en óska ekki eftir virkri aðild að BÍS þurfa ekki að skila inn sakaskrárheimild, enda hafa þau ekki nein réttindi eða skyldur gagnvart BÍS. Eru á skrá yfir styrktaraðila en hafa ekki félagsaðild að BÍS.

E) Skátafélögum er heimilt að stofna sveit í félagatali sínu sem heldur utan um styrktarfélaga félagsins. Um þessa styrktarfélaga gildir það sama og um styrktarfélaga BÍS, þau eru á skrá styrktaraðila skátafélagsins, en eru ekki með virka félagsaðild að BÍS.

Allir lögráða starfandi skátar og sjálfboðaliðar í starfi skátahreyfingarinnar, óháð aðildarleið eða þeim verkefnum sem viðkomandi hyggst sinna, skulu undirrita yfirlýsingu sem veitir Bandalagi íslenskra skáta heimild til að leita eftir upplýsingum hjá Sakaskrá ríkisins um hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða brota á ákvæðum laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum. Enda hluti af réttindum ofangreindra þátttaka í viðburðum eins og skátamótum og Skátaþingi þar sem gera má ráð fyrir þátttöku ungmenna undir 18  ára aldri. Stjórn BÍS er heimilt að víkja einstaklingum eða hópum úr skátahreyfingunni og hafna styrktaraðilum.

15. grein - Félagsforingjafundir

Stjórn BÍS skal a.m.k. árlega boða til félagsforingjafundar. Félagsforingjafundur er vettvangur umræðna um þau mál sem snerta skátastarfið í landinu. Félagsforingjafundur er ráðgefandi samkoma.

16. grein - Ungmennaþing

Ungmennaráð og stjórn BÍS skulu a.m.k. árlega boða til Ungmennaþings. Til Ungmennaþings skal boða með minnsta 6 vikna fyrirvara. Ungmennaþing skal haldið í síðasta lagi fimm vikum fyrir skátaþing ár hvert. Ungmennaþing er vettvangur fyrir skáta 25 ára og yngri til að koma saman og ræða málefni er varða þau sérstaklega. Á Ungmennaþingi geta ungmenni í skátunum t.d. komið sér saman um lagabreytingar og aðrar tillögur fyrir Skátaþing ár hvert ásamt því að kjósa árlega áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS og fulltrúa í ungmennaráð. Aðeins eru kjörgengir þeir skátar sem eru 25 ára eða yngri á því ári sem kosið er.

Á Ungmennaþingi mega framboð berast fram að kosningum.

Auka Ungmennaþing skal halda ef stjórn eða ungmennaráð telja það nauðsynlegt og skal boða til þess með minnst 15 daga fyrirvara. Auka Ungmennaþing er undanskilið því skilyrði að Ungmennaþing skal vera haldið minnst fimm vikum fyrir Skátaþing ár hvert.

17. grein - Skátaþing

Skátaþing fer með æðstu stjórn í málefnum Bandalags íslenskra skáta. Þingið skal halda ár hvert í mars- eða aprílmánuði, eftir ákvörðun stjórnar BÍS. Til Skátaþings skal boða með minnst 6 vikna fyrirvara.

Í fundarboði skal tilgreina til hvaða starfa skuli kjósa á þinginu og hver framboðsfrestur er. Kosningaár skal fara fram á sléttu ártali.

Aukaþing skal halda ef stjórn eða meirihluti virkra skátafélaga telja það nauðsynlegt og skal boða til þess með minnst 15 daga fyrirvara.

Stjórn BÍS ákveður þingstað hverju sinni.

18. grein - Frestir tengdir Skátaþingi

Minnst 4 vikum fyrir Skátaþing skulu tillögur að lagabreytingum hafa borist stjórn BÍS.

Minnst 3 vikum fyrir Skátaþing skulu beiðnir um upptöku tiltekinna mála, sem þarfnast afgreiðslu og/eða umræðu á Skátaþingi, hafa borist stjórn BÍS.

Tillögur um mál sem til umfjöllunar eru á þinginu, samkvæmt útsendri dagskrá, geta komið fram á þinginu sjálfu.

Minnst 2 vikum fyrir Skátaþing skal stjórn BÍS senda félagsforingjum og kynna eftirfarandi:

  • Drög að dagskrá Skátaþings.
  • Drög að skýrslu stjórnar.
  • Drög að ársreikningi.
  • Fjárhagsáætlun og tillögu að félagsgjaldi skáta til BÍS.
  • Drög að starfsáætlun BÍS til fimm ára.
  • Tillögur til lagabreytinga.
  • Tillögur frá skátum, skátafélögum, stjórn BÍS, ráðum þess og nefndum.
  • Kynningu á þeim frambjóðendum sem í kjöri verða á þinginu.

Athugasemdir við útsend gögn skulu berast skrifstofu BÍS eigi síðar en einni viku fyrir Skátaþing. Skulu þær athugasemdir kynntar þingfulltrúum án tafar.

Þátttökutilkynningar allra þingfulltrúa og gesta skulu berast til skrifstofu BÍS minnst einni viku fyrir Skátaþing.

19. grein - Uppstillingarnefnd

Á vegum BÍS skal ætíð starfa sérstök 5 manna uppstillingarnefnd, kosin á Skátaþingi til tveggja ára. Að lágmarki skal einn nefndarmeðlimur ekki vera eldri en 25 ára á því ári sem kosning fer fram. Nefndin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 16. grein, 19. grein, 23. grein, 26. grein og 27. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi.

Við störf sín skal uppstillingarnefnd ávallt leita eftir hæfum frambjóðendum og gæta þess, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn, nefndum og ráðum BÍS sem og að aldursdreifing sé sem jöfnust.

Framboð til áðurnefndra embætta má tilkynna til nefndarinnar og skal það vera skriflegt og undirritað af frambjóðanda. Framboð skulu hafa borist í síðasta lagi 3 vikum fyrir Skátaþing.

Nefndin skal ljúka störfum í síðasta lagi 17 dögum fyrir hvort þing. Nöfn, netföng og símanúmer nefndarmanna skulu tilgreind í fundarboði til Skáta- og Ungmennaþings.

Stjórn BÍS skal kalla uppstillingarnefnd saman í síðasta lagi tíu vikum fyrir Skátaþing.

20. grein - Réttur til setu á Skátaþingi

Rétt til setu á Skátaþingi eiga:

A) Með atkvæðisrétt:

Fulltrúar skátafélaga með aðild A fara með 4 atkvæði, þar af skal eitt atkvæði bundið félagsforingja eða öðrum stjórnarmeðlim skátafélagsins í hans stað og æskilegt er að minnst eitt atkvæði sé í höndum einstaklings á aldrinum 13-25 ára.

Fulltrúar skátafélaga með aðild B fara með 1 atkvæði.

  • Fulltrúar með atkvæðisrétt skulu vera starfandi skátar 13 ára og eldri.
  • Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á Skátaþingi og eingöngu fyrir skátafélag sem hann er skráður félagi í.
  • Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á Skátaþingi, nema um breytingu á lögum BÍS eða Grunngildum BÍS sé að ræða.

B) Með málfrelsi og tillögurétt:

  • Stjórn, ráðsmenn og starfsfólk BÍS
  • Endurskoðendur og skoðunarmenn BÍS
  • Allir starfandi skátar með aðild að BÍS
  • Stjórn BÍS er heimilt að bjóða gestum til Skátaþings

Skilyrði fyrir úthlutun atkvæða er að skátafélag hafi staðið skil á gögnum og greiðslum skv. 10. gr. þessara laga. Kjörbréfanefnd er heimilt að veita undanþágu frá þessu skilyrði sé dráttur á afhendingu tilkynnt tímanlega og henni fylgi skriflegur rökstuðningur. Kjörbréfanefnd skal meta hvað teljast gildar ástæður í þessu sambandi.

Ef atkvæði skátafélaga með félagsaðild A fara undir 51% þá fellur niður atkvæðisréttur annarra félaga á því Skátaþingi og hafa því einungis skátafélög með félagsaðild A atkvæði á þinginu.

Kjörbréf, er tilgreinir aðal- og varafulltrúa skátafélags, undirritað af félagsforingja eða stjórnarmanni skátafélagsins, skal afhenda við upphaf Skátaþings.

21. GREIN - Dagskrá Skátaþings

Stjórn BÍS gerir tillögu að dagskrá Skátaþings og niðurröðun dagskrárliða.

Í upphafi Skátaþings skal borin upp tillaga stjórnar BÍS að dagskrá Skátaþings. Einnig skal kosið í 3ja manna kjörnefnd er fjallar um réttmæti þingfulltrúa og atkvæðafjölda á þinginu og 5 manna allsherjarnefnd sem vinnur úr og samræmir álitamál sem upp kunna að koma á þinginu og fundarstjóri vísar málum til. Aðeins þingfulltrúar þeirra félaga sem staðið hafa skil á gögnum og greiðslum skv. 10. grein hafa kjörgengi í nefndirnar. Ef ágreiningur er innan þingnefnda við ákvarðanatöku ræður meirihluti nefndarmanna og er ákvörðun þingnefnda endanleg.

Á þinginu gilda almenn fundarsköp.

Eftirtaldir dagskrárliðir skulu a.m.k. koma fyrir í dagskrá þingsins hverju sinni:

  • Setning Skátaþings
  • Inntaka nýrra skátafélaga
  • Skýrsla stjórnar fyrir síðasta almanaksár kynnt og rædd
  • Endurskoðaðir reikningar BÍS fyrir síðasta almanaksár kynntir, ræddir og afgreiddir
  • Fjárhagsáætlun BÍS fyrir 2 ár, yfirstandandi ár og það næsta, kynnt, rædd og afgreidd
  • Tillaga að félagsgjaldi skáta til BÍS kynnt, rædd og afgreidd
  • Starfsáætlun BÍS til fimm ára og langtíma stefnumörkun
  • Ályktanir kynntar, ræddar og afgreiddar
  • Lagabreytingar kynntar, ræddar og afgreiddar
  • Kynningar frá skátafélögum
  • Önnur mál
  • Þingslit

Eftirtaldir dagskrárliðir skulu koma fram á kosningaári:

  • Kosningar: Kjörgengir eru allir lögráða skátar
  • Kosning uppstillingarnefndar skv. 19. grein
  • Kosning stjórnar skv. 23. grein
  • Kosning löggilts endurskoðanda skv. 27. grein

22. grein - Starfshættir stjórnar BÍS

Stjórn BÍS stýrir starfsemi BÍS á milli Skátaþinga í umboði þess. Stjórn BÍS skal skipuð sjö skátum: skátahöfðingja, gjaldkera og fimm meðstjórnendum. Stjórn skal funda reglulega, að jafnaði mánaðarlega. Stjórnarfundur er löglegur ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.

Fundir stjórnar BÍS skulu auglýstir á heimasíðu BÍS með minnst viku fyrirvara nema í neyðartilvikum.

Öllum skátum er heimilt að sitja fundi stjórnar BÍS. Skátum má víkja af stjórnarfundi ef ræða á viðkvæm trúnaðarmál.

Samþykktar fundargerðir stjórnar BÍS skulu birtar á heimasíðu BÍS. Þegar stjórn fjallar um viðkvæm trúnaðarmál skal halda utan um þau í sérstakri trúnaðarbók.

Öllum skátum er heimilt að bera erindi undir stjórn BÍS.

23. grein - Kosning stjórnar BÍS

Skátaþing kýs stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Að lágmarki skal einn stjórnarmaður ekki vera eldri en 25 ára á því ári sem kosning fer fram. Kosning fer fram á tveggja ára fresti.

Kjörgengi hafa allir lögráða skátar.

Kosning fer fram á Skátaþingi á tveggja ára fresti og skal vera kosið í embætti skátahöfðingja, gjaldkera og 5 meðstjórnenda. Sérstaklega er kosið um skátahöfðingja og gjaldkera en meðstjórnendur eru kjörnir í einni kosningu. Lendi atkvæði á jöfnu skal kosið sérstaklega á milli þeirra þar til öll sæti hafa verið fyllt.

Við kosningu stjórnarmanna skal þess gætt að þeir séu ekki allir af sama kyni.

Stjórnarmenn mega ekki sitja í stjórn lengur en fjögur kjörtímabil í röð. Láti einhver stjórnarmanna af störfum eða ef um langvarandi fjarveru stjórnarmanns er að ræða á milli aðalfunda skal félagsforingjafundur í samráði við uppstillingarnefnd manna stöðuna fram að næsta aðalfundi.

24. grein - Ábyrgð stjórnar BÍS

Skátahöfðingi er formaður stjórnar og leiðtogi alls skátastarfs. Stjórnin deilir með sér verkum.

Sameiginlega ber stjórn BÍS ábyrgð á:

  • Að skátastarf á Íslandi sé í samræmi við landslög, Grunngildi BÍS, lög og reglugerðir Bandalags íslenskra skáta.
  • Starfi stjórnarmanna, nefnda og ráða á hennar vegum.
  • Öllum meiriháttar skuldbindingum og eignabreytingum og þarf samþykki stjórnarfundar fyrir þeim.

25. grein - Umboð stjórnar BÍS

Stjórn BÍS kemur fram fyrir hönd íslenskra skáta gagnvart einstaklingum, lögaðilum og ríkisvaldi í sameiginlegum málefnum hreyfingarinnar.  Samþykki stjórnar BÍS þarf fyrir inngöngu BÍS í önnur samtök og félög. Stjórn BÍS skal leita staðfestingar næsta Skátaþings á slíkri aðild.

Stjórn BÍS ræður framkvæmdastjóra að undangenginni auglýsingu.

Stjórn BÍS setur reglugerðir um starfsemi skáta innan BÍS og aðra þætti starfsins, eftir því sem þurfa þykir hverju sinni, enda rúmist efni þeirra innan laga BÍS.

Reglugerðir skulu kynntar aðildareiningum BÍS. Hlutverk reglna og reglugerða er að kveða nánar á um skipulag einstakra þátta í starfsemi íslenskra skáta.

Stjórn er heimilt að skipa nefndir og vinnuhópa sér til aðstoðar og ákveða verksvið þeirra. Stjórn er heimilt að skipa sér ráðgjafa eftir þörfum hverju sinni.

Stjórn er heimilt að skipa skáta í embætti og ákveða verksvið þeirra. Þau geta eftir atvikum starfað náið með fastaráðum BÍS.

Upplýsingar um starfandi nefndir, vinnuhópa og embætti skulu ávallt aðgengilegar á heimasíðu skátanna.

26. grein - Fastaráð BÍS

Á vegum stjórnar BÍS starfa ávallt fimm fastaráð: starfsráð, alþjóðaráð, útilífsráð, ungmennaráð og stjórn Skátaskólans.

Kosnir skulu að lágmarki þrír í hvert fastaráð til tveggja ára. Ungmennaráð er kosið árlega Ungmennaþingi til eins árs. Að auki situr stjórnarmaður í ráðinu og getur eftir atvikum verið formaður þess. Stjórn getur ákveðið að fleiri séu kjörnir í ákveðið fastaráð með auglýsingu með fundarboði Skátaþings eða fundarboði Ungmennaþings ef um er að ræða fjölgun meðlima ungmennaráðs.

Í hverju fastaráði BÍS skal vera að lágmarki einn fulltrúi á aldrinum 18-25 ára. Skátar sem bjóða sig fram í ungmennaráð skulu vera á aldrinum 13-25 ára á því ári sem þeir bjóða sig fram.

Láti einhver meðlimur fastaráðs af störfum eða ef um langvarandi fjarveru er að ræða á milli kosningaára skal stjórn BÍS í samráði við uppstillingarnefnd manna stöðuna fram að næsta aðalfundi.

Hlutverk fastaráðanna er eftirfarandi:

  • Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.
  • Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
  • Hlutverk útilífsráðs er að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.
  • Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun dagskrár hreyfingarinnar og eigin skátastarfs.
  • Hlutverk stjórnar Skátaskólans er að stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af Grunngildum Bandalags íslenskra skáta.

27. grein - Ársreikningar BÍS

Reikningsár BÍS er almanaksárið. Reikningar BÍS og dótturfélaga skulu skoðaðir ár hvert af löggiltum endurskoðanda, kosnum af Skátaþingi til tveggja ára í senn.

Félagsleg skoðun reikninga BÍS og dótturfélaga er í höndum þriggja manna félagslegrar skoðunarnefndar sem Skátaþing kýs til tveggja ára í senn. Félagslegir skoðunarmenn reikninga mega ekki sinna öðrum störfum fyrir BÍS sem snerta fjármál. Þeir bera ábyrgð gagnvart Skátaþingi og skulu eiga greiðan aðgang að öllu bókhaldi BÍS og er stjórninni skylt að veita þeim allar nauðsynlegar upplýsingar um fjármál og reikningshald þess.

Felli Skátaþing framlagða reikninga fer fram yfirskoðun eftir reglum sem þingið setur. Að þeirri yfirskoðun lokinni skal boðað til framhaldsþings sem tekur nánari ákvörðun um reikninga.

28. grein - Ársreikningar BÍS

Fjárhagsgrundvöllur BÍS skal tryggður með fjárframlögum skátafélaga, styrktarfélaga, opinberra aðila og með fjáröflunum.

Stjórn BÍS er heimilt að efna til fjáraflana ef þær krefjast ekki þátttöku almennra skáta í landinu. Fjáraflanir sem krefjast slíkrar þátttöku skulu samþykktar á Skátaþingi eða með skriflegri atkvæðagreiðslu félagsforingja og ræður meirihluti.

Óheimilt er að veðsetja fasteignir BÍS nema að undangengnu einróma samþykki stjórnar BÍS.

29. grein - Slit BÍS

Til þess að slíta Bandalagi íslenskra skáta eða sameina það öðrum samtökum  þarf samþykki 4/5 hluta greiddra atkvæða á lögmætu Skátaþingi. Með slíkri samþykkt er störfum þess þings tafarlaust lokið, en fráfarandi stjórn skal sitja áfram með fullu umboði. Skal hún boða til auka-Skátaþings sex mánuðum síðar. Sé þá aftur samþykkt, með atkvæðum a.m.k. 4/5 hluta atkvæðisbærra fulltrúa, að slíta BÍS, skulu það heita lögleg slit þess.

Ákvæði laga þessara um Skátaþing skulu gilda um aukaþingið.  Ef samþykkt verður skv. 1. mgr. að slíta BÍS skal aukaþingið ákveða hvert fjárhagslegar og ófjárhagslegar eignir og réttindi BÍS skulu renna.

30. grein - Breytingar á lögum BÍS

Lögum þessum verður því aðeins breytt að 2/3 hlutar greiddra atkvæða á Skátaþingi samþykki þá breytingu. Auk þess þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða tveggja Skátaþinga í röð til að breyta Grunngildum BÍS og 4. grein þessara laga.

31. grein - Aðgengi að samþykktum BÍS

Lög BÍS og Grunngildi BÍS, ásamt gildandi reglugerðum, skulu ávallt vera aðgengileg á heimasíðu BÍS.

32. grein - Síðast breytt

Lög þessi eru sett á Skátaþingi 2023 og öðlast þegar gildi.